Morgunblaðið skýrir frá þessu og hefur eftir honum að hann vildi helst setjast niður í dag og hefja viðræður.
Það var formannaráð BHM sem samþykkti umboðið en formenn allra 28 aðildarfélaga BHM sitja í því. Á síðustu árum hafa félögin sjálf farið með viðræður af þessu tagi en nú hafa þau ákveðið að hefja viðræðurnar saman undir forystu Friðriks.
Hér er um viðræðuumboð að ræða, ekki samningsumboð.
Morgunblaðið hefur eftir Friðriki að BHM telji að ekki sé eftir neinu að bíða þrátt fyrir að samningar hins opinbera renni ekki út fyrr en á næsta ári. „Við viljum ekki lenda í þeirri stöðu að hér renni samningar út í lok mars og svo líði 6- 12 mánuðir áður en nýir samningar taki við,“ sagði hann.