fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Tilræðið við Rushdie og óttinn við að tjá sig

Eyjan
Sunnudaginn 28. ágúst 2022 18:30

Salman Rushdie og Ayaan Hirsi Ali

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir því sem árin — og áratugirnir þrír — liðu þótti mörgum sífellt ósennilegra að nokkur hefði lengur raunverulega í hyggju að myrða Salman Rushdie, líkt og erkiklerkurinn í Teheran hafði fyrirskipað árið 1989. Heimsbyggðin var því að vonum felmtri slegin þegar tilræðismaðurinn lagði til atlögu við Rushdie í New York hinn 12. ágúst sl. Í heimi bókstafstrúarmanna er engu gleymt en árásarmaðurinn var fæddur næstum áratug eftir útkomu Söngva Satans (e. The Satanic Verses). 

Heimspressan hefur verið uppfull af upprifjunum þessu tengdu síðasta hálfa mánuðinn en í alþjóðaútgáfu New York Times hinn 17. ágúst sl. var bent á hvernig mál Rushdies varpaði ljósi á umræðu samtímans um tjáningar- og skoðanafrelsi og því velt upp að líklega hefðu viðhorf í þessu efni færst um sumt til verri vegar á Vesturlöndum á umliðnum þremur áratugum.

Lítum okkur nær

Sjálfur lét Rushdie svo um mælt í viðtali við The Guardian í fyrra að sá hópur manna sem tekið hefði málstað sinn í kjölfar yfirlýsingar erkiklerksins myndi ólíklega gera það á okkar dögum. Helgist það af því að í okkar samtíma séu sífellt fleiri sem telji óréttmætt að hópar manna verði fyrir móðgunum. Þetta hafi haft í för með sér sjálfsritskoðun. En rétt er að taka fram að fyrir Rushdie vakti ekki að móðga múslima — hann var einfaldlega þeirrar skoðunar að trúarsetningar væru efniviður sem listamönnum væri frjálst að notfæra sér við sköpun sína, þannig hefðu til að mynda vestrænir listamenn umgengist kristindóminn um langa hríð.

Í kjölfar árásarinnar á dögunum lét bandaríski rithöfundurinn David Rieff svo um mælt á Twitter að ef Söngvar Satans kæmu út fyrst nú yrði sú gagnrýni án efa hávær að verið væri að móðga hóp manna. Höfundur texta á borð við þann sem Rushdie ritar í bókinni fengi ef til vill að heyra það að „orð séu ofbeldi“ eins og sumir Bandaríkjamenn taka til orða nú um stundir — en Rieff bendir á að slíkt tal minni illþyrmilega á skilning ofsatrúarklerkanna í Teheran.

Ungir róttæklingar vestanhafs hafa undanfarin ár farið mikinn í gagnrýni sinni á óheft tjáningarfrelsi sem þeir segja skálkaskjól fyrir niðrandi og hatursfullt tal. Og rifja má upp þegar rithöfundasamtökin PEN America ákváðu að veita ritstjórum franska skopblaðsins Charlie Hebdo verðlaun fyrir hugrekki fyrir að hafa haldið áfram útgáfunni þrátt fyrir að íslamskir öfgamenn hefðu myrt tólf starfsmenn blaðsins á skrifstofu þess. Þá vildi svo til að sex framámenn í samtökunum PEN America neituðu að mæta á heiðurskvöldverðinn þar sem verðlaunin voru afhent þar sem blaðamenn Charlie Hebdo hefðu að þeirra áliti gerst sekir um kynþáttahatur og andúð á Islam (e. racism, Islamophobia). Enn fleiri félagsmenn í Pen America tóku undir þessar ásakanir og mótmæltu heiðursviðurkenningunni.

Hér hefur bersýnilega orðið viðhorfsbreyting. Þriðja alheimsþing rithöfunda í Strassborg vorið 1997 var haldið á sama tíma og fjöldasamkoma franska öfgaflokksins Front National, flokks sem var að mörgu leyti andhverfa þess sem samtök rithöfunda vildu berjast fyrir, bræðralags sem ekki yrði heft af landamærum. Salman Rushdie sagði í ræðu á þessu þingi að Jean-Marie Le Pen, formaður Front National, yrði að fá að tjá skoðanir sínar eins og aðrir. Tjáningarfrelsið fæli líka í sér að menn yrðu að þola skoðanir sem gengju öndvert gegn þeirra eigin grunngildum. Og fasismi myndi ekki gufa upp þó svo að einn stjórnmálaflokkur væri bannaður.

Vestræn grunngildi

Mannréttindafrömuðurinn og baráttukonan Ayaan Hirsi Ali ritaði grein á dögunum sem birtist á vefnum UnHerd. Þar lýsir hún því þegar hún sem unglingur í Nairóbí í Keníu tók þátt í bókabrennum. Þetta var árið 1989 — árið sem klerkastjórnin í Íran lýsti Salman Rushdie réttdræpan. Reyndar bjó fólk í hennar nærumhverfi við slíka fátækt að það hafði ekki ráð á að kaupa bókina Söngva Satans. Þess í stað letruðu mótmælendur titilinn á pappaspjald og létu sem um bókina væri að ræða. Síðan var kveikt í pappírsstaflanum. Hún segir þetta hafa verið hvort tveggja í senn hlægilegt og hlálegt en fólki hafi verið fúlasta alvara, uppfullt af heilagri vandlætingu. Hirsi Ali flúði síðar nauðungarhjónaband, settist að á Vesturlöndum og gekk af trúnni. Hún sannfærðist þess í stað um ýmis vestræn grunngildi, þar með talið tjáningar- og prentfrelsi, samviskufrelsi og kvenfrelsi.

Hirsi Ali rifjar upp að vestræn stjórnvöld hafi reynt að semja við klerkastjórnina í Teheran í kjölfar þess að erkiklerkurinn lagði fé til höfuðs Rushdie. Þetta hafi verið í stíl við viðbrögð Vesturlanda við tilburðum klerkanna við að koma sér upp kjarnorkuvopnum: að reyna samningaviðræður. En í þessu sem öðru felist algjört skilningsleysi á eðli stjórnarinnar í Teheran. Hirsi Ali segir hinn róttæka íslamska heim og þann vestræna ósættanlegar andstæður og vestrænum leiðtogum sé með öllu fyrirmunað að vingast við klerkastjórnina. Þá sé ómögulegt að afmá fatwa — dauðadómurinn sé eilífur. Og af þeim sökum útilokað að leysa úr máli af þessu tagi með vestrænum diplómatískum aðferðum. Hún segir óvininn í þessu tilfelli aldrei munu gefast upp, hann hugsi í öldum fremur en mánuðum og árum og bíði þolinmóður tækifæris til að fá vilja sínum framgengt. 

Nauðsynlegt sé að skilja eðli klerkastjórnarinnar í Íran og annarra íslamskra ofstækishreyfinga. Sem gagnrýnandi múslimskra bókstafstrúarmanna hefur Hirsi Ali sjálf þurft að þola ofsóknir. Hún situr undir stöðugum líflátshótunum og nýtur verndar öryggisvarða allan sólarhringinn. Þegar þau Theo van Gogh unnu að gerð heimildarmyndar árið 2004 um stöðu kvenna í hinum íslamska heimi var van Gogh stunginn með hnífi í brjóstið af ofsatrúarmanni. Hann hlaut bana af. Með fylgdi bréf þar sem stóð að Hirsi Ali væri næst í röðinni.

Fréttirnar af árásinni á Rushdie komu að vonum illa við Hirsi Ali. Hún segir tilræðið sýna hversu vægðarlaus óvinurinn er en um leið þolinmóður. Hún veltir því fyrir sér hvort hún fái nokkru sinni um frjálst höfuð strokið. Á hana leitar líka sú áleitna spurning hvort börnin hennar muni njóta öryggis.

Ógnin við frelsið

Eftir árásirnar á tvíburaturnana 11. september 2001 komst Rushdie svo að orði að leiðin til að sigra slíka hermdarverkastarfsemi væri að láta ekki óttann stýra lífi sínu, orðrétt mælti hann: „How to defat terrorism? Don´t be terrorised.“ Hirsi Ali gerir þessi orð að sínum og kveðst, líkt og Rushdie, munu halda áfram að taka til máls. Hún hafi kosið frelsið — líkt og Rushdie.

Og orð eru ekki ofbeldi, ofbeldi er ofbeldi. Á þessu verður ætíð að gera skýran greinarmun. Árásin á Salman Rushdie kemur okkur öllum við. Málið snýst um grundvöll vestræns lýðræðis og forsendu frumlegrar sköpunar — tjáningar- og skoðanafrelsi. En ógnin við frjálsa tjáningu og frjálsa hugsun er ekki bara utanaðkomandi. Hana er líka að finna innan vestrænna samfélaga og rétt að spyrja sig hvort hin vestræna frjálslynda lýðræðishefð standi hreinlega nógu traustum fótum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
30.10.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?