Margrét Friðriksdóttir, sem rekur miðilinn Fréttin.is, birti færslu á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hún segir að fjármagn fyrir rekstur vefsíðunnar sé af skornum skammti. Margrét segir að færslan sé neyðarákall.
„Elsku vinir, það gengur illa að fá fyrirtæki til að auglýsa hjá okkur, þrátt fyrir miklar og stöðugar heimsóknir á síðuna, en það virðist ekki breyta neinu varðandi að fyrirtæki þora einfaldlega ekki að auglýsa hjá okkur,“ segir Margrét í færslunni. Samkvæmt skráningu Fréttin.is hjá Fjölmiðlanefnd er Margrét eini eigandi miðilsins.
Hún kennir öfgafólki um að fyrirtæki „þori ekki“ að auglýsa á vefsíðunni. Þá segir hún þetta sama fólk „ofsækja“ viðskiptavini vefsíðunnar. „Þessir fáu sem hafa auglýst hjá okkur hafa borist hótanir frá einstaklingum sem ganga hart fram í að stöðva málfrelsið,“ segir hún.
Margrét segir að hún og aðrir sem hafa lagt hönd á plóg séu búin að vera í „svo gott sem sjálfboðaliðastarfi“ við að halda vefsíðunni uppi í heilt ár. Það er að segja fyrir utan eina milljón sem vefsíðan fékk í startgjald. „Við fengum að vísu 1. milljón í startgjald sem hefur verið greitt til blaðamanna á miðlinum ásamt lausapennum sem að hafa verið sanngjarnir með verð,“ segir hún.
Þá greinir Margrét frá því að hún hafi ekki ennþá náð að greiða sjálfri sér laun en að það sé aukaatriði. „Því ég er fyrst og fremst þakklát fyrir að hafa náð að koma orðinu út og finnst heilmikið afrekað í gegnum Fréttin.is frá því var stofnað fyrir ári síðan,“ segir hún.
Nú virðist þó vera sem endalok vefsíðunnar nálgist, það er að segja ef Margrét fær enga styrktaraðila. „Nú er svo komið að ég sé engan annan kost en að hætta með miðilinn ef ekkert fjármagn berst, því sjóðurinn er að tæmast og ég vil ekki skulda fólki fyrir góð störf,“ segir hún og gefur boltann á Facebook-vini sína.
„Er þakklát fyrir að hafa getað staðið straum að þessu verkefni og geng sátt frá borð, nú er boltinn hjá ykkur. Kærar þakkir þið sem hafið styrkt okkur og stutt og verið óhrædd við að auglýsa og taka þátt í að miðla sannleikanum sem markvisst hefur verið reynt að þagga niður, takk fyrir allt, þið hafið haldið okkur gangandi.“
Að lokum segir Margrét aftur að um neyðarákall sé að ræða en auk þess þakkar hún fyrir stuðninginn og biður fólk um að deila færslunni. „Ég sendi hér með neyðarákall fyrir allra vildarvini sem að styðja óháðan fjölmiðil sem færir fréttir sem ekki fær hljómgrunn hjá meginstrauminum, og fær enga ríkisstyrki og litlar auglýsingatekjur. Takk allir fyrir stuðninginn og hvatninguna.“