Um síðustu jól lagðist Árni Þórður, sonur veðurfræðingsins Sigurðar Þ. Ragnarssonar, inn á gjörgæslu Landspítalans vegna alvarlegrar líffærabilunar en Árni var í mikilli lífshættu. Jólin voru erfiður tími fyrir Árna og fjölskyldu hans en tvísýnt var hvort hann myndi lifa af.
Til allrar hamingju náði Árni þó að berjast eins og hetja og tæpum þremur mánuðum eftir að hann lagðist inn losnaði hann úr öndunarvélinni. Sigurður, sem er hvað þekktastur sem Siggi Stormur, hefur í gegnum allt ferlið verið ákaflega þakklátur starfsfólki Landspítalans sem og þeim sem sendu stuðning á þessum erfiðu tímum.
„Þau bæði stöppuðu í mig stálinu og sendu kraftmikla og hlýja strauma. Ég held að þetta í samblandi við þetta frábæra starfsfólk á spítalanum – þetta er skýringin á því að drengurinn er á lífi,“ sagði hann í samtali við DV fyrr á árinu.
Sjá einnig: Sonur Sigurðar laus úr öndunarvélinni – „Ég er algjörlega agndofa og eiginlega orðlaus“
Núna eru liðnir rúmir 9 mánuðir síðan Árni lagðist inn á Landspítalann og hefur bataferlið gengið svo vel að horfur eru á því að hann fari að útskrifast á næstunni. Frá þessu segir Sigurður í færslu á Facebook-síðu sinni en hann veitti DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um efni færslunnar.
„Núna vel á 9. mánuð höfum við fjölskyldan þurft að lifa við að horfa uppá strákinn okkar, 29 ára berjast fyrir lífi sínu. Ég vorkenni okkur ekki þó á reyni. Það er hann sem er veikur og liggur því á LSH. Sárt er hins vegar að kynnast hve vanmáttug við og sumpart læknarnir eru þegar alvarleg veikindi banka uppá, og í þessu tilviki hjá fullkomlega heilbrigðum ungum einstaklingi,“ segir Sigurður í færslunni.
Þá deilir Sigurður mynd af Árna sem tekin var síðustu jól þegar hann var að berjast fyrir lífi sínu. Hann segir að starfsfólki deildarinnar sem sonur hans lá á verði aldrei nóg þakkað og þá sérstaklega yfirlækninum á gjörgæslunni, Sigurbergi Kárasyni. „Núna tæpum 9 mánuðum eftir áfallið er ekki að sjá annað en að það styttist í að hann geti útskrifast af LSH og mögulega hafið endurhæfingu, hvar svo sem það verður,“ segir Sigurður svo.
Í samtali við blaðamann segir Sigurður að ekki sé búið að ákveða neitt með útskrift Árna af spítalanum en það séu þó væntingar um að hægt verði að útskrifa hann á næstu vikum.
Að lokum segir Sigurður að hann ætli sér að skrifa bók um áfallið. „En nú er ég ákveðinn í að skrifa bók um þetta áfall og reynslu mína af kerfinu. Það er full ástæða til. Guð geymi ykkur öll. Siggi stormur.“
Færslu Sigurðs má sjá hér fyrir neðan:
Lesa meira: Sonur Sigurðar í lífshættu á Landspítalanum – „Það er mjög gott að finna stuðninginn“