Ólína Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, var á göngu ofan við Rauðarvatn í dag með tíkinni Freyju, sem er ljúfur labradorhundur, og eiginmanni sínum. Þar varð hún fyrir óvæntu áreiti hjólreiðakonu sem hafði tekið sér hvíldarpásu við göngustíginn.
„Hef ekki húmor fyrir þessu,“ segir Ólína í opinni færslu á Facebook þar sem hún greinir frá áreitinu.
„Það er þrautleiðinlegt að verða fyrir áreiti fólks bara vegna þess að fólk kannast við mann úr fjölmiðlum og telur sig vita hver maður er og hvernig maður er, og að það megi nú bara alveg segja sína skoðun …. hver sem hún svo sem kann að vera hverju sinni … óháð stað og stund,“ segir Ólína. Hún tekur fram að hún verði ekki oft fyrir þessu, en það gerist þó af og til.
Segir stígana ekki ætlaða til hjólreiða
„Eins og margir vita er þetta svæði nánast eina svæðið í Reykjavík þar sem fólk getur verið með lausa hunda, enda er mikil umferð gangandi fólks og hundafólks á þessum slóðum og yfirleitt alltaf mjög gaman að koma og njóta fegurðarinnar þarna. Það kunna þó fleiri að meta svæðið, því hjólreiðafólk er í auknum mæli farið að leggja leið sína þangað þó að stígarnir séu alls ekki ætlaðir til hjólreiða. Raunar liggja þeir undir skemmdum í rigningum, haust og vor vegna hjólreiðanna, enda eru þetta moldarstígar, auk þess sem gangandi fólki og hlaupandi hundum stafar töluverð ógn af hjólaumferðinni þegar hún er í meira lagi,“ segir Ólína og tekur fram að hún viti ekki til þess að amast hafi verið við hjólreiðafólki þarna og allir reyni að lifa í sátt og samlyndi.
Í dag gengu þau síðan fram á hjólreiðafólk sem var að hvíla sig við stíginn, tvær konur og tvo eða þrjá karla sem voru sitthvoru megin við stíginn og því ekki annað í boði fyrir þau en að ganga á milli þeirra.
Veitist að þeim því tíkin er laus
„Við buðum góðan dag, svona eins og maður gerir á góðum degi í fallegu veðri.
Bregður þá svo við að önnur konan veitist að okkur fyrir að vera með lausan hund. Spyr með þjósti hvort hann tilheyri okkur. Við játum því og fáum þá óðara spurninguna „og má vera með lausa hunda hér?“ sem hljómaði þó alls ekki eins og spurning (hundafólk veit hvaða tón ég er að tala um). Að fengnu svari (og ég játa að ég lét fylgja að ég væri þó ekki viss um að stígarnir þarna væru ætlaðir til hjólreiða, en um það voru þó ekki höfð fleiri orð) umturnaðist konan þarna í sólskininu,“ segir Ólína og konan hafi talið sig þess umkomna að hella yfir hana svívirðingum.
Ólína hafði engan áhuga á að staldra þarna við þannig að hún b“að konuna að eiga góðan dag og hélt áfram. Konan hafi þá argað á Ólínu „En ekki þú!“
Lausaganga hunda ekki leyfð á stígunum
Ólína fær gríðarlega mikil viðbrögð við skrifunum. „Skil þig. Það er svona rotið egg í götunni minni. Og hefur hún ofsótt mig gróflega vegna hundsins míns,“ skrifar ein konan við færslu Ólínu.
„Gott hjá þér að segja frá, dóninn sem þið urðuð fyrir á sér ekki málsbætur að koma svona fram,“ skrifar önnur.
Sú þriðja skrifar: „Mikil samkennd hér! Við höfum svo oft orðið fyrir ofbeldi af hálfu gangandi, hlaupandi og hjólandi á göngu með okkar ljúflings hunda í gegnum tíðina.“
Karlmaður nokkur bendir síðan á að lausaganga hunda sé raunar ekki leyfð á göngustígum á þessu svæði heldur einungis utan göngustíga, og lætur hann fylgja með kort frá Borgarvefsjá þar sem þetta kemur fram. „Réttlætir ekki nein fúkyrði frá einum eða neinum en ágætt að benda á þetta. Ég hef sjálfur lent í að hundur elti mig og glefsi í mig á þessu svæði þegar ég var í rólegheitum að hjóla þarna um,“ skrifar hann.