Arsenal 2 – 1 Fulham
0-1 Aleksandar Mitrovic(’56)
1-1 Martin Ödegaard(’64)
2-1 Gabriel(’85)
Arsenal er enn með fullt hús stiga í ensku úrvalsdeildinni eftir grannaslag við Fulham á Emirates í kvöld.
Arsenal lenti nokkuð óvænt undir í leik kvöldsins er markavélin Aleksandar Mitrovic kom boltanum í netið fyrir gestina á 56. mínútu.
Markið skrifast algjörlega á Gabriel í vörn Arsenal sem tapaði boltanum klaufalega og kom Serbinn boltanum framhjá Aaron Ramsdale.
Sú forysta entist ekki lengi en á 64. mínútu jafnaði Martin Ödegaard metin fyrir heimaliðið með skoti sem breytti um stefnu af varnarmanni.
Það var svo skúrkur fyrsta marksins, Gabriel sem tryggði stigin á 85. mínútu eftir hornspyrnu þar sem Bernd Leno, markmaður Fulham, leit ekki vel út.
Leno yfirgaf einmitt Arsenal fyrir Fulham í sumar og var ekki sannfærandi í sigurmarkinu.
Lokatölur 2-1 fyrir Arsenal sem er á toppnum með fullt hús stiga.