Magnús Aron Magnússon, sem grunaður er um að hafa orðið nágranna sínum, Gylfa Bergmann Heimissyni, að bana í hrottalegri líkamsárás þann 4. júní síðastliðinn, hefur verið ákærður fyrir morðið. Vísir greinir frá því í dag að búið sé að ákæra karlmann á þrítugsaldri fyrir manndráp í Barðavogi en ljóst er að um er að ræða Magnús Aron, sem verður 21 árs gamall á þessu ári.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Magnús mun fara fyrir dóm en árið 2020 var hann sakfelldur fyrir ofbeldi og brot á barnaverndarlögum er hann veittist að ungum dreng. Mbl.is greindi frá fyrra broti Magnúsar í sumar en það átti sér stað í október árið 2019. Árás Magnúsar er sögð hafa verið algjörlega tilefnislaus en hann var tæplega 18 ára gamall þegar hún fór fram.
Nágrannar Magnúsar, sem DV ræddi við, lýstu honum í sumar sem tifandi tímasprengju. Nágrannarnir töldu að hann ætti að búa í sérstöku úrræði en ekki almennu íbúahverfi. Skömmu fyrir voveiflegt lát Gylfa var lögregla tvisvar kölluð að húsinu í Barðavogi vegna meintrar ógnandi framkomu Magnúsar við aðra íbúa í húsinu.