Þyrlusveit og björgunarsveitir voru kallaðar út vegna neyðarkalls frá fiskibáti við Reykjanesbæ. SStjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá skipstjóra bátins sem sendi út merkið laust eftir klukkan níu í morgun. Báturinn var þá vélarvana rétt utan við Keflavík og var við það að reka upp í bergið í norður af smábátahöfninni í Reykjanesbæ. Einn var um borð. Í fréttatilkynningu Landhelgisgæslunnar kemur fram að þyrlusveit var þegar í stað kölluð út á mesta forgangi en áhöfn þyrlunnar var að undirbúa æfingarflug og gat brugðist skjótt við og hélt þegar af stað á vettvang.
Sjóbjörgunarsveitir á Suðurnesjum, á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, voru jafnframt kallaðar út sem og lögregla. Skipstjóri báts sem var staddur í nágrenninu var einnig beðinn um að halda á staðinn. Klukkan 9:30, einungis rúmum tuttugu mínútum eftir að neyðarkallið barst, voru björgunarsveitir komnar með bátinn í tog. Á meðan var þyrla Landhelgisgæslunnar í viðbragðsstöðu á vettvangi ef á þyrfti að halda.
Björgunarsveitir héldu með bátinn í höfnina í Reykjanesbæ en viðbragð allra sem að málinu komu var snöggt og fumlaust. Enginn leki virðist hafa komið að bátnum þrátt fyrir að hann hafi nuddast utan í bergið.
Landhelgisgæslan hefur nú sent frá sér myndband af aðgerðinum sem tekin var úr þyrlu stofnunarinnar.