Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás fyrir að hafa í október 2020 ráðist að öðrum manni með skærum og stungið hann ítrekað í líkama hans og einu sinni í andlitið. Er fórnarlamb árásarmannsins hugðist flýja út af heimilinu er árásarmaðurinn sagður hafa elt hann út og þar gert tilraun til þess að stinga hann aftur í líkamann.
Mun maðurinn hafa hlotið af árásinni fjögur sár í bak og öxl, sár í olnboga og sár á vinstri kinn.
Saksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Málið hefur þegar verið þingfest í Héraðsdómi Vesturlands þar sem það er til meðferðar.