Paul Ince, goðsögn Manchester United, hefur látið Cristiano Ronaldo, núverandi leikmann liðsins, heyra það en Portúgalinn hefur verið í blöðunum í allt sumar.
Ronaldo ku vera að reyna að komast burt frá enska stórliðinu til að spila í Meistaradeildinni en ekkert hefur gengið upp hingað til.
Ince er virkilega óánægður með framkomu Ronaldo og telur að keppinautur hans til margra ára, Lionel Messi, hefði aldrei látið eins.
Messi og Ronaldo hafa lengi verið taldir bestu knattspyrnumenn heims en Ronaldo er hvað frægastur fyrir tíma sinn hjá Real Madrid er Messi spilaði með Barcelona.
,,Ronaldo þarf að fara frá Man Utd. Ef hann hefði verið í klefanum þegar ég spilaði með leikmönnum eins og Roy Keane og Steve Bruce þá hefðu við ekki sætt okkur við þetta og hann hefði ekki komist upp með neitt,“ sagði Ince.
,,Að velja hann ekki í byrjunarliðið gegn Liverpool var svo mikilvægt því það sýnir fólki að það er líf án Ronaldo. Hann hefur verið truflun fyrir alla hjá félaginu. Þú myndir aldrei sjá Lionel Messi láta svona.“