Eigandi veitingastaðanna Flame í Katrínartúni og Bambus í Borgartúni eru grunaðir um stórfelldan launaþjófnað. Þetta kemur fram í frétt Mbl.is um málið.
Fyrr í dag var send fréttatilkynning á fjölmiðla þar sem fram kom að eftirlitsmenn Fagfélaganna grunaði tvo veitingastaði í Reykjavík um stórfelldan launaþjófnað. Í tilkynningunni var ekki greint frá nafni staðanna en þau voru opinberuð í áðurnefndri frétt Mbl.is.
Starfsfólk veitingastaðanna tveggja virðist aðeins hafa fengið lágmarkslaun greidd, en vinnudagur þeirra spannaði tíu til sextán klukkustundir, sex daga vikunnar. Þá fengu þau engin vaktaálög, enga yfirvinnu, orlof eða annað sem gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði og hefur verið samið um. Eftirlitsteymi Fagfélaganna bauð fólkinu að komast út úr þeim aðstæðum sem það var í, en allir starfsmenn sem voru á vakt þann daginn þáðu boðið.
Við nánari eftirgrennslan kom svo í ljós að starfsmenn veitingastaðanna bjuggu í íbúð á vegum atvinnurekenda en var boðið að fara í íbúð á vegum stéttarfélags, sem þeir þáðu.
Í ljósi þessa mun Kjaradeild Fagfélaganna gera launakröfu á hendur fyrirtækjanna fyrir hönd starfsmannanna, auk þess sem teymið mun verða þeim innan handar að finna ný störf og nýtt heimili.
Í áðurnefndri frétt Mbl.is segir Davíð Fei Wang, eigandi veitingastaðanna tveggja, að málið sé byggt á misskilningi og að lausn hafi verið fundin á því en það sé ekki skilningur aðila á vegum Fagfélaganna.