Barnsfaðir Önnu Khyzhnyak hefur um margra ára skeið ofsótt hana, ógnað henni og áreitt. Þrátt fyrir að hann hafi verið úrskurðaður í nálgunarbann gegn Önnu um tíma þurfti hún engu að síður að þola það að þurfa að eiga samskipti við hann vegna þess að þau deila forræði yfir dóttur þeirra.
Tilkynningar hennar og kærur til lögreglu hafa litlu breytt og er Anna orðin úrkula vonar um að kerfið standi með henni.
Anna er gestur Eddu Falak í nýjasta þætti hlaðvarpsins Eigin Konur. Fjallað er um þáttinn á vef Stundarinnar.
Anna er frá Úkraínu og lýsir reynslu sinni af því ofbeldi sem hún varð fyrir. Anna segist vilja vekja athygli á því kerfislæga ofbeldi, sem erlendar konur verða fyrir. Takmörkun á aðgengi að nauðsynlegum upplýsingum og vernd gegn ofbeldinu, þegar brotið er á þeim, getur haft alvarlegar og langvarandi áhrif. „Hver átti að vernda mig?” segir Anna í þættinum og greinir frá því að þrátt fyrir nálgunarbann að þá hafi barnsfaðir hennar ennþá verið með umgengni við barnið og hafi því mátt mæta heim til hennar.
Anna greinir frá viðtali við ráðgjafa Barnaverndarnefndar en í minnisblaði þar um segir að Anna beri að „faðir hafi í eitt sinn beint að móðir byssu og hótað henni að byssan yrði það síðasta sem hún myndi sjá.”
Anna spyr: „Hver átti að passa mig og barnið á þessu tímabili þegar nálgunarbann gagnvart mér var í gildi en líka umgengnissamningur gagnvart barninu? Þarna var ég sett í mjög erfiða stöðu.“
Hún var í viðtölum hjá Stígamótum og kvennaathvarfinu frá 2015-2016. Síðan 2016 hefur hún verið að tilkynna líflátshótanir, áreiti, líkamsárás og andlegt ofbeldi í garð dóttur þeirra.
„Hann fékk nálgunarbann eftir atvikið með byssuna en ég fékk engar upplýsingar um það hvernig það virkaði […] Þetta hafði engin áhrif á umgengni því hann mátti mæta heim til mín til þess að sækja barnið. Barnavernd hringdi aldrei og ég fékk engin almennileg svör frá sýslumanni […] Ég bara veit ekki hver átti að vernda mig,” segir hún.
„Það var eitt atvik þegar ég var ein heima, hann brýst inn um miðja nótt og stendur yfir mér […] Ég tilkynnti þessa líkamsárás til lögreglu en það fór ekki lengra […] Mér var sagt að skipta um lás”
Meðal þess ofbeldis sem Hún mátti sæta af hendi mannsins voru ótölulegur fjöldi skilaboða þar sem hann hafði með ýmsum hætti í hótunum við hana. Meðal annars fékk hún skilaboð árið 2017 þar sem sagði: „I don‘t want u to end like Birna“ eða „Ég vil ekki að það fari fyrir þér eins og Birnu“. Var þar verið að vísa til hins hörmulega morðs á Birnu Brjánsdóttur sem skók íslensku þjóðina á þeim tíma.
Hér má horfa á þáttinn í heild sinni.