Raheem Sterling, leikmaður Chelsea, var brjálaður fyrr í sumar er honum var í raun kastað burt af félaginu sem hann lék með í sjö ár.
Sterling skoraði 131 mark fyrir Man City í öllum keppnum á þessum sjö árum eftir að hafa komið frá Liverpool.
Undanfarin tvö ár fékk enski landsliðsmaðurinn þó ekki að spila eins mikið og var tjáð að hann mætti fara annað í sumar.
Hann var gríðarlega vonsvikinn með vinnubrögð Man City en segir það allt grafið og gleymt í dag.
,,Á þessum tímapuntki var ég reiður, ég var brjálaður en það er nú horfið,“ sagði Sterling í samtali við Sky Sports.
,,Þetta tilheyrir fortíðinni og ég get bara einbeitt mér að nútíðinni sem er núna, hér hjá Chelsea. Ég er með tækifæri til að sýna mína hæfileika á ný.“
,,Allir vilja finna fyrir ást og það er ekkert öðruvísi í fótboltanum. Þú gefur þitt allt í verkefnið, þarft að missa af afmæli barnanna þinna og svo er komið fram við þig á ákveðinn hátt, það er mjög svekkjandi.“
,,Það er skammarlegt að sjá hvernig þetta endaði að lokum því ég naut þess mjög mikið að spila þarna.“