Auglýsingar fyrir haframjólkina frá Oatly hafa vakið töluverða athygli á samfélagsmiðlum í dag. Ástæðan fyrir athyglinni er sú að auglýsingarnar, sem eru í strætóskýlum víðs vegar um bæinn og á íslenskum netmiðlum, eru á ensku.
„It’s like milk but made for humans,“ stendur í auglýsingunum en Björk Eiðsdóttir, ritstjóri helgarblaðs Fréttablaðsins, vakti athygli á ensku auglýsingunum á Facebook-síðu sinni í dag en hún kemur auk þess með frábæra þýðingu á slagorðinu sem rímar meira að segja. „Eins og mjólk – en gerð fyrir fólk“ hefði svoleiðis steinlegið hér!“ segir Björk og spyr hvers vegna það sé ekki ákveðið að hafa auglýsinguna á íslensku.
Karen Kjartansdóttir almannatengill grípur keflið frá Björk og spyr hvaða „fásinna“ það sé að setja enska slagorðið á strætóskýli þegar auðvelt er að þýða það. „Vandræðalegt að sjá hve mörg fyrirtæki berja sér á brjóst fyrir samfélagslega ábyrð á sama tíma og þau nenna ekki að þýða einföldustu skilaboð sem ætluð eru samfélaginu sem þau starfa í,“ segir Karen svo í athugasemdunum við færsluna sína.
Þá blandar Andri Snær Magnason rithöfundur sér einnig í leikinn í athugasemdakerfinu hjá Kareni. „Glatað ef þetta er stefnan,“ segir Andri Snær. Hann merkir svo Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, í næstu athugasemd og segir að borgarstjórn ætti að fara fram á í samningum að auglýsingar séu á íslensku.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, vekur einnig athygli á auglýsingunni á sinni Facebook-síðu og segir: „Auglýsingar eiga að vera á íslensku!“
„Það er ástæðulaust og raunar bannað með lögum að birta auglýsingar á ensku þegar markhópurinn er augljóslega íslenskur að mestum hluta,“ segir Eiríkur svo.
Í athugasemdunum við færslur þeirra Bjarkar, Karenar og Eiríks lýsir fleira fólk yfir óánægju sinni með það að auglýsingarnar séu ekki á íslensku. „Sammála, mér finnst auglýsingar á ensku sífellt meira áberandi,“ segir til að mynda einn netverji.
Í athugasemdunum við færslur um málið hefur verið rætt um að Neytendastofa hafi beitt sér í málum sem þessu. DV ræddi við Þórunni Önnu Árnadóttur, forstjóra Neytendastofu, um málið en hún segir að málið sé ekki komið formlega á borð hjá þeim.
„Við höfum í rauninni tekið mál til meðferðar í gegnum tíðina þar sem auglýsingar hafa verið á ensku, við höfum ekki tekið formlegar ákvarðanir því auglýsingunum hefur yfirleitt verið breytt þegar við höfum haft samband,“ segir Þórunn í samtali við blaðamann. Yfirleitt hefur það dugað Neytendastofu að senda fyrirtækjum bréf þegar auglýsingar eru á ensku því fyrirtækin taka það yfirleitt til sín.
Þórunn segir að Neytendastofa sé meðvituð um auglýsingarnar frá Oatly en að ekki sé búið að taka neina formlega ákvörðun um málið. „Við erum ekki búin að taka ákvörðun um það hvort við grípum til aðgerða en við þurfum bara að skoða þetta,“ segir hún.
Þá segir Þórunn að mál sem þessi séu ekki jafn algeng og mörg halda. „Í sjálfu sér þá gerist þetta ekki eins oft og maður myndi halda, miðað við allt sem er í gangi. Það er eins og fólk passi sig á þessu, sérstaklega í svona þessum hefðbundnu miðlum.“
Ekki náðist samband við framkvæmdastjóra markaðssviðs hjá Innes, sem flytur inn Oatly, við gerð fréttarinnar.