Elliði Vignisson hefur bráðum starfað í 17 ár sem bæjarstjóri, fyrst í Vestmannaeyjum og nú í Ölfusi. Elliði segir að erindin sem hann hefur fengið til meðferðar á þessum árum telji í þúsundum, jafnvel tugum þúsunda. Það breytir því þó ekki að erindi nokkuð sem hann fékk á dögunum er að hans mati eitt hið fallegasta af þeim þúsundum sem hann hefur fengið.
„Þetta erindi frá honum Hrólfi Vilhelm, vini mínum og nágranna, er eitt hið fallegasta,“ segir Elliði í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag.
Um er að ræða bréf frá Hrólfi sem er einungis nýorðinn 9 ára gamall. „Hæ Elliði. Ég er 9 ára og bý á Þóroddsstöðum og er hjá pabba mínum aðra hverja viku og mig langar til að hjóla í sveitinni en ég get það ekki. Það vantar hjólastíga. Kveðja Hrólfur Vilhelm. Vona að þú svarir,“ segir Hrólfur í bréfinu til Elliða og lætur fylgja með fallega teiknaða mynd.
Elliði tók vel í bréf Hrólfs og segir að eðli máli samkvæmt fari þetta vandaða erindi til formlegrar meðferðar, það verður því lagt fyrir bæjarstjórn á morgun. „Hér minnir hann á mikilvægi þess að við hugum að hjólastígum í dreifbýlinu,“ segir Elliði og bætir við að Hrólfur hafi að sjálfsögðu fengið persónulegt svar eins og hann óskaði eftir.
„Framtíðin er björt á meðan við eigum svona öfluga einstaklinga til að taka við keflinu. Hamingjan er hér,“ segir hann að lokum.
Hægt er að sjá færslu Elliða og mynd af bréfinu hér fyrir neðan: