Jorgelina Cardoso, eiginkona Angel Di Maria, vandar Englandi og Manchester ekki kveðjurnar í nýju viðtali. Eiginmaður hennar lék með Manchester United tímabilið 2014 til 2015.
Di Maria kom til United frá Real Madrid en stóð aldrei undir væntingum á Old Trafford. Hann fór til Paris Saint-Germain strax ári síðar.
Jorgelina segist aldrei hafa viljað flytja til Englands.
„Angel kom til mín einn daginn og sagði mér að skoða þettatilboð frá Manchester United. Mig langaði ekki að fara og sagði honum að fara einum. Hann sagði að þetta væri meiri peningur en á Spáni,“ segir Jorgelina.
„Þetta var hræðilegt. Ég sagði að ef hann yrði seldur þá ætti hann að vera viss um að það væri hvar sem er í heiminum fyrir utan England.“
Jorgelina segir að allt við England hafi verið glatað. „Fólkið er allt skrýtið. Maður gengur um og veit ekki hvort það ætli að drepa þig. Maturinn er ógeðslegur og konurnar líta út eins og postulín.“
„Við vorum í Madríd, hjá besta félagi í heimi, með fullkominn mat, veður, allt var fullkomið. Svo kom þetta boð frá United.“