Harry McKirdy, framherji Swindon Town í ensku D-deildinni, hefur verið ákærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir hegðun sína í leik liðsins gegn Salford fyrr í þessum mánuði.
McKirdy var þá rekinn af velli í fyrri hálfleik. Hann fór svo inn í búningsklefa dómara í hálfleik, þar sem hann ætlaði að ræða við dómara leiksins. Hann var hins vegar ekki þar. Í stað þess þrumaði hann flösku með próteindrykk í gólfið, með þeim afleiðingum að hún sprakk og sullaðist yfir föt dómarans.
Hinn 25 ára gamli McKirdy fékk aðeins eins leiks bann fyrir spjaldið og hefur því spilað síðan.
Nú hefur enska knattspyrnusambandið hins vegar ákært leikmanninn fyrir ofsafengna og óæskilega hegðun. Hann mun því að öllum líkindum fá mun lengra bann.