Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, hefur tjáð sig eftir leik við Manchester United í kvöld.
Liverpool tapaði 2-1 á Old Trafford með nokkuð vængbrotið lið og kalla margir eftir því að miðjumaður verði keyptur inn í sumar.
Klopp viðurkennir að staðan sé erfið en telur að hans menn hafi vel getað náð öllum þremur stigunum í kvöld.
,,Það er augljóst að þetta er erfið staða þegar kemur að meiðslum, við komumst í gegnum vikuna með 14-15 eldri leikmenn til taks og þurfum að sjá til þess að þeir meiðist ekki því þá erum við ekki með fleiri möguleika,“ sagði Klopp.
,,Jafnvel í okkar stöðu, ef við hefðum spilað aðeins betur og verið aðeins meira sannfærandi þá hefðum við unnið þennan leik. Ég veit það hljómar fáránlega en þannig sé ég þetta.“
,,Þeir voru mjög ákafir alveg frá byrjun og það var ljóst hvað myndi gerast í leiknum.“