Enska knattspyrnugoðsögnin Ellen White hefur lagt skóna á hilluna, 33 ára gömul.
White var síðast á mála hjá Manchester City. Hún var ein af hetjum Englands, sem varð Evrópumeistari á heimavelli í sumar.
„Mig hefur alltaf langað að taka þessa ákvörðun á mínum forsendum. Það er kominn tími fyrir mig til að kveðja knattspyrnusviðið og horfa á næstu kynslóð skína,“ segir meðal annars í yfirlýsingu White, sem sjá má í heild hér neðar.
White skoraði tvö mörk fyrir enska landsliðið á EM í sumar. Í heildina skoraði hún 52 mörk í 113 landsleikjum.
Hún var alls fulltrúi Englands á sex stórmótum, þremur Evrópumótum og þremur heimsmeistaramótum. Hún skoraði til að mynda sex mörk á HM 2019.
Í félagsliðabolta varð White þrisvar sinnum Englandsmeistari, tvisvar með Arsenal og einu sinni með Manchester City. Hún vann FA-bikarinn sömuleiðis þrisvar sinnum.
Thank You Football… pic.twitter.com/WmeDGeX9zT
— Ellen White (@ellsbells89) August 22, 2022