Barcelona er á fullu að reyna að losa sig við leikmenn til að fá inn næga fjármuni til að skrá nýjan leikmann sinn, Jules Kounde, til leiks.
Kounde gekk í raðir Börsunga frá Sevilla í sumar fyrir 46 milljónir punda. Hann hefur hins vegar ekki getað spilað í fyrstu tveimur leikjum Barcelona í spænsku deildinni þar sem félagið á ekki efni á að skrá hann.
Talið er að Barcelona þurfi að losa um 17 milljónir punda til að geta skráð Kounde. Félagið hefur aðeins þar til fram að mánaðarmótum til að skrá hann, annars getur Frakkinn farið annað frítt.
Leikmenn eins og Pierre-Emerick Aubameyang og Memphis Depay hafa verið orðaðir frá Barcelona. Gæti félagið fengið inn ágætis upphæð fyrir þá.
Þá hefur danski framherjinn Martin Brathwaite einnig verið orðaður annað, til dæmis við Real Mallorca.