Erik ten Hag, stjóri Manchester United, mun bekkja fyrirliðann Harry Maguire í leiknum gegn Liverpool í kvöld, ef marka má frétt talkSPORT.
United hefur byrjað tímabilið afleitlega. Liðið tapaði fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni gegn Brighton 1-2 og öðrum leiknum gegn Brentford 4-0.
Í kvöld á United svo ekki minna verkefni fyrir höndum, er Liverpool kemur í heimsókn.
Erik ten Hag sér greinilega ástæðu til að gera breytingu á liði sínu og ætlar sér að taka Maguire úr vörninni fyrir leikinn. Þá er líklegt að Raphael Varane og Lisandro Martinez verði í hjarta varnarinnar.
Maguire er fyrirliði United. Ekki er ljóst hver verður fyrirliði í leik kvöldsins, verði hann bekkjaður.
Fyrir leikinn í kvöld verður Casemiro kynntur sem nýr leikmaður United. Miðjumaðurinn er að ganga í raðir United frá Real Madrid. Þessi þrítugi miðjumaður fær fjögurra ára samning á Old Trafford.
Talið er að Casemiro fái númerið 18 hjá United, númer sem Paul Scholes bar á sínum tíma.