„Ég hef ekki enn getað horft á videoið sjálfur en strákurinn lítur þannig út að ég get rétt ímyndað mér aðförina,“ segir faðir drengs sem varð fyrir ógeðfelldri hópárás um helgina.
Árásin var algjörlega tilefnislaus en fórnarlambið, sem er á þrítugsaldri, var á rölti um miðbæinn á Menningarnótt ásamt félaga sínum og tveimur stúlkum þegar þau veittu því eftirtekt að sex manna hópur ungra manna gekk á eftir þeim. Hópurinn réðst til atlögu við annan manninn og þegar hinn reyndi að stilla til friðar sneri hópurinn sér að honum og gekk hrotalega í skrokk á honum á flötinni fyrir framan Alþingishúsið. Vísir greindi fyrst frá tilvist myndbandsins og hefur eftir Margeiri Sveinssyn, yfirlögregluþjóni á höfuðborgarsvæðinu, að einhvers konar ofbeldisbylgja gangi yfir landið. Vísar Margeir í að hnífsstunguárás varð sömuleiðis í miðbænum um helgina og segist yfirlögregluþjónninn ekki hafa tölu á fjölda stunguárása sem af er ári.
Faðir drengsins er ómyrkur í máli varðandi árásina enda sonur hans illa farinn eftir árásina. „Það er mjög skrítið að lenda í þessu satt að segja. Mér leið þannig í gær að hefði ég náð á einhverjum þeirra eða jafnvel öllum þá hefðu þeir aldrei þurft að kemba hærurnar aftur. Versta tilfinning sem ég hef upplifað í áratugi,“ segir faðirinn.
Hann telur að sonur sinn sé heppinn að vera á lífi eftir árásina enda ofsinn hrollvekjandi. „Þeir spörkuðu eingöngu í höfuðið á honum.“
Auk annarra áverka er sonur hans með mölbrotið kinnbein og beðið sé eftir úrskurði bæklunarlæknis um hvenær sé heppilegt að hann gangist undir umfangsmikla aðgerð vegna meiðsla sinna.
Að sögn föðursins verður árásin kærð og hafi sonur hans fengið úthlutað tíma hjá lögreglu á miðvikudags í næstu viku til að leggja fram formlega kæru. „Þeir munu finnast en því miður efast ég um að réttlætinu verði fulknægt samt. Þetta eru vesalingar sem lítið geta lært er ég hræddur um. Þeir eiga eftir að drepa einhvern,“ segir faðirinn.
Í myndbandi hér fyrir neðan má sjá upptöku af árásinni. Þar má einnig heyra hvernig ónefnd kona skerst í leikinn og segir árásarmönnunum til syndanna.