Þessi þróun, að konur sæki til Gambíu í leit að kynlífi, hefur átt sér stað á síðustu 30 árum. Það eru ekki bara konur frá Bretlandi sem leita þangað, konur víða að úr Evrópu koma þangað en flestar eru þær frá Bretlandi. Þær eru í leit að kynlífi með ungum heimamönnum.
The Telegraph segir að nú vilji ferðamannayfirvöld í Gambíu binda enda á heimsóknir af þessu tagi því þær skaði orðspor landsins á erlendum vettvangi. „Það sem við viljum eru gæðaferðamenn, Ferðamenn sem koma til að njóta landsins og menningarinnar en ekki bara í leit að kynlífi,“ sagði Abubacarr S. Camara, forstjóri ferðamálasamtaka landsins.
Kynlífsferðir til Gambíu byrjuðu að njóta mikilla vinsælda eftir að breska ferðaskrifstofan Thomas Cook byrjaði að selja pakkaferðir þangað á tíunda áratugnum. Einnig kemur töluverður fjöldi kvenna frá Hollandi, Svíþjóð og Þýskalandi til landsins til að hitta unga karla.
Mikil fátækt, mikið atvinnuleysi og litlir möguleikar á menntun gera mörgum Gambíubúum erfitt fyrir við að komast af og fyrir marga unga menn er líkami þeirra aðaltekjulindin. Þeir selja konunum kynlíf í von um peninga og hugsanlega leið til að komast til Evrópu.