Stuðningsmaður Chelsea hefur verið dæmdur í ævilangt bann og mun aldrei aftur geta mætt á heimavöll liðsins, Stamford Bridge.
Þetta staðfesti enska stórliðið í gær en þessi maður var með rasisma í garð Heung-Min Son, leikmanns Tottenham, um síðustu helgi.
Chelsea rannsakaði málið í samstarfi við lögreglu eftir leikinn sem fór fram síðasta sunnudag og lauk með 2-2 jafntefli.
Chelsea gaf frá sér yfirlýsingu fyrr í vikunni þar sem félagið sagðist miður sín yfir heimskulegri hegðun stuðningsmannsins sem væri að setja svartan blett á félagið.
Son er framherji Tottenham og er af asískum uppruna en hann er í dag einn allra besti sóknarmaður ensku úrvalsdeildarinnar.