Formaður leikmannasamtakana í Danmörku, Michael Hansen, hefur tjáð sig um stöðu sóknarmannsins Martin Braithwaite hjá Barcelona.
Braithwaite neitar að yfirgefa spænska félagið í dag þar sem hann á inni töluvert af launum hjá félaginu og er einnig samningsbundinn til 2024.
Barcelona hefur reynt að rifta samningi danska landsliðsmannsins sem er áreittur af stuðningsmönnum félagsins.
Hansen segir að það sé ekkert rétt í því sem er í gangi á Nou Camp og að Braithwaite eigi ekki skilið þessa framkomu.
,,Meðferðin sem Martin er að ganga í gegnum á engan rétt á sér. Þetta er eitthvað sem má líkja við áreiti og einelti,“ sagði Hansen.
,,Það er skammarlegt hvernig Barcelona er að reyna að þvinga hann út úr þessum samningi, út úr hans starfi..“
,,Þetta er leikmaður sem kom til bjargar þegar pressan var til staðar og nú er hann sagður vera til skammar. Hvar er réttlætið?“