Kevin de Bruyne, leikmaður Manchester City, býst við því að Bernardo Silva verði áfram hjá félaginu í sumar.
Bernardo virtist kveðja Man City með Twitter færslu á dögunum þar sem hann þakkaði fyrir falleg augnablið í Manchester sem og stuðninginn sem hann hefur fengið.
Bernardo er sterklega orðaður við Barcelona þessa dagana en spænska félagið vill fá hann í sínar raðir.
De Bruyne er þó ekki áhyggjufullur og telur að liðsfélagi sinn sé ekki á förum í sumar.
,,Hann veit að hann er mjög elskaður hérna,“ sagði De Bruyne í samtali við blaðamenn.
,,Ég sé þetta þannig að hann verði hér áfram, ég hef ekki áhyggjur af neinu. Sama hvað gerist þá er hann frábær fyrir okkur og ég býst við að hann spili með okkur í vetur.“