Máli héraðssaksóknara gegn 24 ára gömlum nígerískum karlmanni var á dögunum þingfest í Héraðsdómi Reykjaness en manninum er gefið að sök að hafa flutt rétt tæpt kíló af kókaíni með sér til Íslands frá París, innvortis, með flugfélaginu Transavia. Til Parísar er maðurinn svo sagður hafa flutt kókaínið, einnig innvortis, frá Hollandi. Kókaínið er, að því er fram kemur í ákærunni sem DV hefur undir höndum, mjög sterkt og þarf því ekki að spyrja hvernig hefði farið ef pakkningarnar utan um kókaínið sem maðurinn bar innvortis hefðu rofnað. Maðurinn var að endingu handtekinn við komuna til Íslands.
Af ákærunni má ráða að maðurinn dvelji nú í fangelsinu á Hólmsheiði í gæsluvarðhaldi.
Saksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Málið var þingfest á þriðjudaginn síðastliðinn.