Í júní síðastliðin var 101 árs gamall Þjóðverji dæmdur fyrir stríðsglæpi í seinni heimsstyrjöldinni. Það er talið hann sé að öllum líkindum síðasti nasistinn sem réttað er yfir fyrir voðaverk í útrýmingarbúðunum.
Engu skipti þótt 77 ár séu liðin frá glæpunum, þeir fyrnast aldrei samkvæmt þýskum lögum.
Josef Schütz var dæmdur fyrir morð á rúmlega 3000 manns þegar hann starfaði sem vörður í Sachsenhausen búðunum í þrjú ár.
Hryllingurinn í Sachsenhausen
Yfir 200 þúsund manns fóru í gegnum Sachsenhausen. Um var að ræða pólitíska andstæðinga nasista, gyðinga, samkynhneigða, stríðsfanga og Rómafólk.
Tugir þúsunda þeirra dóu í gasklefum, voru teknir af lífi af aftökusveitum, létust við skelfilegar ,,læknisfræðilegar” tilraunir eða voru einfaldlega handahófskennt skotnir eða barðir til bana af vörðum búðanna.
Josef heldur því staðfastlega fram að um rangan mann væri að ræða, hann hafi aldrei stigið inn í útrýmingarbúðir, hvað þá starfað í þeim. Þeirri fullyrðingu var vísa á bug af dómstól sem taldi meira en nægar sannanir fyrir glæpum hans.
Sannað þótti að Josef stóð bæði fyrir aftökum á sovéskum stríðsföngum svo og fjöldamorðum í gasklefum búðanna. Alls var hann dæmdur fyrir 3.518 morð og morðtilraunir auk þess að vera meðsekur í morðum annarra starfsmanna búðanna.
Hann var dæmdur til fimm ára fangelsisvistar.
Þegar dómur var felldur sagði dómari að ekki bara hefði Josef sjálfur framið morð heldur hefði hann hvatt aðra verði til þess sama. Það eitt og sér væri ófyrirgefanlegt.
Josef heldur því enn staðfastlega fram að ásakanir á hendur honum séu helber lygi. Hann segist ekki einu sinni skilja hvað hann eigi að hafa gert og sé allt ferlið reyndar óskiljanlegt.
Enn er leitað
Þjóðverjar eru enn með deild innan hins opinbera sem leitar nasista sem frömdu grimmdarverk í heimsstyrjöldinni. Fjölgað hefur verið í deildinni undanfarin ár í þeirri von um að finna fleiri stríðsglæpamenn áður en það er seint.
Árið 2016 staðfesti hæstiréttur dóm yfir Oskar Gröning, öðrum nasista sem rannsóknarmenn deildarinnar fundu. Hann hefur verið nefndur ,,bókhaldari” Auschwitz útrýmingarbúnnaða og sem slíkur meðsekur um morð á 300 þúsund föngum, þótt svo að aldrei hafi sannast að hann hafi sjálfur framið morð.
Þá var talið hugsanlegt að Oskar yrði sá síðast sem dæmdur væri en það reyndist ekki rétt.
Fengu loks gögnin
Rannsóknarmenn deildarinnar fundu Josef árið 2018 eftir að hafa fengið loks afhent gögn frá Rússlandi. Um er að ræða skýrslur sem sovéskir hermenn gerðu upptækar við frelsun búðanna og tóku með til Sovétríkjanna sálugu.
Í skýrslunum kemur fram að Josef gekk í SS sveitir nasista tvítugur að aldri. Hann starfaði sem fangavörður í búðunum frá 1942 til 1945 og þótti standa sig það vel að hann fékk titilinn Rottenführer innan SS.
Náði ekki að sjá réttlætið fram að ganga
Josef gat ekki með neinu móti skýrt skýrslurnar né þær nákvæmu upplýsingarnar sem þar var að finna um heima. Í skýrslunum var meira að segja ljósmynd af honum.
Sjálfur sagðist hann hafa starfað á bóndabæ öll stríðsárin og aldrei á ævi sinni hafa klæðst einkennisbúningi, hvað þá verið í sveitum SS.
Einn þeirra sem báru vitni gegn Josef var Leon Schwarzbaum, pólskur gyðingur sem var einn þeirra sem hlaut frelsið þegar að Sovétmenn réðust inn í búðirnar. Hann sagði fyrir dómi að réttlæti væri hans æðsta ósk og það næðist einvörðungu með sektardómi yfir Josef Schütz.
Leon Schwarzbaum féll því miður frá áður en dómur var upp kveðinn og náði því ekki að sjá kvalara sinn loksins dæmdan.
Það er samt sem áður talið ólíklegt að Josef Schütz muni nokkurn tíma dvelja í fangelsisklefa sögum aldurs og heilsuleysis.
Josef Schütz er elsti einstaklingurinn sem dæmdur er fyrir glæpi í helförinni og afar líklega sá síðasti.