44 ára gömul kona frá Dóminíska lýðveldinu hefur verið ákærð fyrir smygl á rúmu kílói af kókaíni með flugvél flugfélagsins Play Air til Íslands frá Barcelona í maí á þessu ári.
Í ákærunni, sem DV hefur undir höndum, er konan sögð hafa fest pakkningarnar með samtals um 1,2 kílóum af kókaíni við lærin á sér. Pakkningarnar fundust við eftirlit í Leifsstöð. Konan var síðar úrskurðuð í gæsluvarðhald og dvelur hún nú í fangelsinu á Hólmsheiði.
Í ákærunni kemur jafnframt fram að kókaínið var mjög sterkt, eða um 92-94% hreint.
Málið var þingfest í lok síðustu viku í Héraðsdómi Reykjaness. Saksóknarar krefjast þess að konan verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Konan neitaði sök við þingfestingu málsins.