Knattspyrnukonan Lára Kristín Pedersen opnar sig upp á gátt í nýrri bók sinni um baráttu við matarfíkn. Bókin ber heitið Veran í moldinni: Hugarheimur matarfíkils í leit að bata.
Lára segir frá matarfíkninni sem hún glímdi við um árabil. Þrátt fyrir það stundaði hún íþrótt sína á meðan.
Bókin veitir lesendum innsýn í hugarheim matarfíkils, en lítið hefur verið fjallað um sjúkdóminn almennt.
„Ég er búin að borða vigtaða og mælda morgunmatinn minn en ég finn að ég vil aðeins deyfa mig, þó innan rammans, og fæ mér hádegismatinn alltof snemma. Eftir klukkutíma líður mér eins og ekkert geti linað þjáningar mínar annað en matur. Matur með efninu mínu í. Matur í óhóflegu magni. Matur sem ætti ekki að kallast matur,“ skrifar Lára í einum kafla bókarinnar.
„Ég opna vafra í símanum mínum; dominos.is. Ég panta mér sparitilboð A og tel niður mínúturnar þar til ég fæ pizzuna í hendurnar.“
Á þessum tímapunkti hafði Lára áður farið í meðferð. Henni var því brugðið þegar hún sá að afi hennar var fyrir utan heimili hennar. Lára bjó í sama húsi og amma hennar og afi.
„Ég fylgist með út um dyragættina. Hvenær kemur sendillinn eiginlega? Þegar ég sé bílinn renna í hlað sé ég einnig að afi er fyrir utan húsið. Ég sé hann, hann sér mig ekki, en sér þó pizzusendilinn. Guð minn góður. Hann veit ég fór í meðferð. Hann veit að þetta er ekki partur af programmet. Hann veit að ég er fallinn enn einu sinni. Ansans. Ojæja, mér er svo sem sama. Mér er sama um allt. Mér er sama um lífið. Ég vil bara fá mína pizzu og það strax.“
„Ég treð henni í mig á innan við hálftíma. Sextán tommu pizza og gos. Brauðstöngunum hendi ég í ruslatunnuna. Ég girnist þær en ég hreinlega kem ekki munnbita í viðbót ofan í mig. Nákvæmlega ástandið sem ég vil vera í.“
Skömmu síðar var Lára farin að hugsa um næsta skammt. „Tveir tímar líða og það eina sem ég get hugsað um er hvernig ég get komist út í búð til að viðhalda ástandi mínu. Ég laumast inn til ömmu og afa, stel bíllyklunum og dríf mig í Hagkaup. Í millitíðinni hafði ég farið út í ruslatunnu og sótt brauðstangirnar. Mér fannst það ekki spennandi en á amma og afi áttu ekkert almennilegt inni hjá sér nema smá Toblerone og einhverja kökuafganga sem ég var búin að klára. Ég varð að fá eitthvað og tróð því ruslatunnulyktandi brauðstöngunum í mig. Skömmin við þá gjörð var mikil en það er ekki eins og ég hafi verið að gera það í fyrsta sinn.“
Lára segist hafa verið löngu hætt að borða vegna nautnar. Hún þurfti einfaldlega sinn skammt af sykri, hveiti og fleiru.
„Ég er fangi. Fangi þessa kleinuhrings fyrir framan mig. Hversu langt niður er ég komin? Ég er fangi kleinuhrings. Ég þrái ekkert heitar en að losa mig við þessi efni úr lífi mínu fyrir fullt og allt.“
Í næsta kafla bókarinnar segir Lára svo frá annari meðferðinni sem hún fór í, í kjölfar ofangreindra atvika.
Lesa má nánar um bókina, sem og panta eintak, á síðu Forlagsins með því að smella hér.