Síbrotamaðurinn ungi Sigurður Brynjar Jensson hefur verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir brot gegn valdstjórninni fyrir að hafa skallað fangavörð, kýlt hann og síðar bitið annan fangavörð í upphandlegg þann 5. mars í fyrra. Mun síðarnefndi fangavörðurinn hafa hlotið tvö sár með bitförum um það bil 3 cm í þvermál, að því er fram kemur í ákærunni sem DV hefur undir höndum.
Sakaferill Sigurðar er nokkuð langur þrátt fyrir ungan aldur, en hann er aðeins 26 ára gamall. Árið 2015 var Sigurður ákærður fyrir hrottafengna frelsissviptingu í Breiðholti, en hann hafði þá nýverið dæmdur fyrir aðra frelsissviptingu sem fram fór í Vogum á Vatnsleysuströnd það sama ár.
Sigurður hlaut tveggja ára skilorðsbundið fangelsi í júní árið 2015, 14 mánaða dóm fyrir frelsissviptinguna í Vogum í júlí árið 2015 og svo í desember það sama ár tveggja ára fangelsi fyrir frelsissviptinguna og árás á karl og konu í Breiðholti.
Mun Sigurður þar, í félagi við annan mann, hafa farið að heimili fólks í Breiðholti sem hann sakaði um að hafa stolið læknadópi af sér. Voru þar til heimilis maður og kona, en konuna höfðu þeir með sér á brott og héldu henni nauðugri, misþyrmdu henni og hótuðu, eftir að hafa ráðist að þeim báðum á heimili þeirra. Var Sigurður dæmdur fyrir að hafa skorið manninn í fótlegg og þau bæði í andlit, vörslu fíkniefna og þjófnað.
Fyrir dómi sagði Sigurður að hann hafi verið viti sínu fjær af amfetamín neyslu og að þeir báðir hefðu verið vakandi í heila viku. Aðspurður hvort hann hafi ímyndað sér að það hafi verið sárt fyrir parið að vera skorið í andlitið, svaraði Sigurður að það væri ekkert voðalega sárt að vera skorinn svona snögglega. „Ég held að höggið hafi verið verra fyrir hann,“ að því fram kom í frétt Vísis um málið árið 2015.
Máli héraðssaksóknara gegn Sigurði verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 1. september næstkomandi.