Ástæðan er væntanlega að svefngæðin eru ekki nægilega góð. Eitthvað veldur því að þau eru ekki eins góð og þau ættu að vera.
CNN fjallaði nýlega um málið og nefndi nokkur atriði til sögunnar sem geta valdið því að svefngæðin eru ekki nægilega góð.
Kyrrseta getur haft þau áhrif á líkamann að hann venst því að nota aðeins lítið af orku. Þetta getur valdið því að þér finnst þú þreyttari en þú ættir að vera þegar tekist er á við hversdagslegar athafnir. Lausnin er að hreyfa sig meira en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO mælir með því að fullorðnir hreyfi sig í minnst 150 mínútur, hófleg til þróttmikil ákefð, á viku.
Kvíði og þunglyndi geta haft áhrif á þreytustigið og geta haft neikvæð áhrif á hversu langan tíma það tekur að sofna og hvort fólk vaknar á nóttunni og þá hversu oft. Lyf, sem eru notuð við kvíða og þunglyndi, geta stundum valdið svefnleysi eða lokað fyrir dýpri svefnstig.
Óreglulegur svefntími getur valdið þreytu á vökutíma. Það er því mikilvægt að reyna að hafa svefntímann reglulegan, forðast að snúa sólarhringnum við um helgar.
Vökvaskortur. Við þurfum mikinn vökva til að halda okkur gangandi. Vökvaskortur getur haft slæm áhrif á svefngæði og því er mikilvægt að passa að drekka nóg yfir daginn.
Nánar er hægt að lesa um þetta á vef CNN.