Mánudagar eru fiskdagar hjá mörgum og ekkert er betra en fiskur í sælkerabúningi. Hér kemur ótrúleg einfaldur og ljúffengur grískur fiskréttur úr smiðju Lindu Ben sem heldur úti uppskriftarsíðunni Linda Ben.
Rétturinn er léttur og inniheldur mikið grænmeti sem er bakað í ólífu olíu- sítrónulegi. Úr verður alveg stórkostlega djúsí og bragðmikill réttur sem er virkilega einfaldur í framkvæmd. Það má með sanni segja að þetta sé sælkeraréttur sem þið verðið að prófa.
Grískur fiskréttur að hætti Lindu Ben
450 g þorskhnakkar
2 msk. ólífu olía til steikingar
2 msk. smjör
3 msk. ólífu olía
Safi úr 1 sítrónu
1 dl hveiti
1 tsk. cumin
1 tsk. paprika
1 tsk. túrmerik
1 tsk. kóríander
½ pakki forsoðnar parísarkartöflur
½-1 rauð paprika
125 g kirsuberjatómatar
2 hvítlauksgeirar
1 krukka feta ostur
nokkrar ólífur, helst svartar en annars grænar
Salt og pipar eftir smekk
Fersk steinselja eftir smekk
Aðferð
Byrjið á því að kveikja á bakarofninum og stillið á 200°C. Bræðið smjörið og blandið út í ólífu olíu og sítrónu safa. Setjið hveiti í skál og bætið kryddunum saman við (ekki salt og pipar, það fer seinna), blandið vel saman. Skerið þorskhnakka flakið í hæfilega stóra hluta, mér fannst gott að skipta því í þrjá hluta. Setjið hvern bita í olíu/smjör/sítrónu blönduna þannig hann blotni vel og hjúpið bitann svo í hveitiblöndunni. Hitið 2 matskeiðar af ólífuolíu á pönnu þangað til pannan er mjög heit en ekki rjúkandi heit. Steikið bitana í um það bil 3 mínútur á hvorri hlið (það er óþarfi að elda fiskinn í gegn þar sem hann er fulleldaður í ofni)
Á meðan fiskurinn er á pönnunni, raðið þá kartöflum, paprikubitum, kirsuberjatómötum og ólífunum í eldfast mót. Setjið fiskinn svo ofan á grænmetið, reynið að setja hann svolítið ofan í grænmetið. Skerið niður tvö hvítlauksgeira smátt niður og dreifið honum yfir réttinn.
Hellið restinni af olíunni/smjör blöndunni yfir og dreifið svo fetaosti yfir allt saman. Kryddið með salti og pipar. Bakið inn í ofni í 15 mínútur eða þangað til osturinn verður gullinbrúnn.
Stráið að lokum ferskri steinselju yfir. Njótið vel.