Dýr af þessari tegund voru um einn og hálfur metri á lengd og á milli fjögur og sjö kíló. Þetta kemur fram í Scientic Reports þar sem skýrt er frá niðurstöðum rannsóknarinnar.
Talið er að tegundin hafi verið uppi fyrir um 100 milljónum ára, á Krítartímanum.
Dýrin voru með einhverskonar brynvörn um hálsinn og niður eftir bakinu, að halanum. Þetta er fyrsta risaeðlan, með brynvörn, sem hefur fundist í Suður-Ameríku. Talið er líklegt að hún hafi getað gengið upprétt á afturfótunum.
Vísindamenn telja að tegundin sé af ætt risaeðla með brynvörn, meðal annarra tegunda sem tilheyra þeirri ætt er Stegosaurus.
Það tók tíu ár að grafa dýrið upp við stíflu í Patagóníu.