Rússneski herinn hefur kerfisbundið tekið yfir stjórn á Internetinu á hernumdu svæðunum í austur og suðurhluta Úkraínu. Búið er að loka vinsælum vefsíðum á borð við Facebook, Instagram og Twitter. Allri netumferð er beint til Rússlands svo rússnesk yfirvöld geti ritskoðað innihaldið.
Í umfjöllun New York Times er skýrt frá því að skömmu eftir að rússneskar hersveitir náðu borginn Kherson á sitt vald hafi hermenn komið til netþjónustuaðila og skipað þeim að afhenda þeim stjórnina á netinu. „Þeir beindu byssu að höfði þeirra og sögðu að þeir ættu bara að gera þetta. Þetta gerðist smám saman hjá öllum fyrirtækjum,“ sagði Maxim Smeljanets, eigandi eins netfyrirtækisins, í samtali við New York Times.
Rússar stöðvuðu alla starfsemi úkraínska farsímafyrirtækja og beina allri umferð um farsíma og Internetið til rússneskra netþjóna. Íbúar á hernumdu svæðunum neyðast til að fá sér áskrift hjá rússneskum símafyrirtækjum ef þeir vilja nota farsíma.
Víða hafa íbúar á hernumdu svæðunum nú aðeins aðgang að rússneskum ríkisútvarps- og sjónvarpsstöðvum.