Hár hiti og þurrkar hafa valdið miklum skógar- og gróðureldum víða í álfunni. Sömuleiðis hafa mörg vötn og ár orðið fyrir áhrifum af þessu veðurfari og vatnsborðið í þeim minnkað mikið. The Guardian segir að í sumum ríkjum séu þurrkarnir í ár þeir mestu í 200 ár og það stefnir í að þeir verði þeir verstu í 500 ár.
Í Suður-Evrópu er svo mikill vatnsskortur að bændur á Ítalíu og í Frakklandi hafa áhyggjur af uppskeru ársins. Evrópska þurrkastofnunin segir að 45% af álfunni glími nú við þurrka, þar af eru þurrkarnir í 15% álfunnar flokkaðir sem alvarlegir. Dagbladet skýrir frá þessu.
Í Frakklandi var úrkoman í júlí aðeins 9,7 mm sem er 84% minni úrkoma en að meðaltali í júlí frá 1991 til 2021. Þetta hefur valdið því að bráður vatnsskortur er í 62 héruðum og í rúmlega 100 sveitarfélögum er ekki lengur rennandi drykkjarvatn.
Ítalir hafa glímt við hitabylgju síðan í maí. Það hefur nú haft í för með sér að í Mílanó hafa borgaryfirvöld bannað fólki að þvo bíla sína og vökva garða. Einnig hefur verið skrúfað fyrir alla gosbrunna í borginni. Luca Mercalli, formaður samtaka ítalskra veðurfræðinga, sagði að engin gögn frá síðustu 230 árum sýni nokkuð líkt þeim þurrkum og hita sem hefur herjað á Ítali á árinu.