Buddy Harwood, fógeti í Madison-sýslu í Norður-Karólínufylki hefur tekið til sinna ráða við að stemma stigu við skotárásum í skólum sem illu heilli hafa farið sem eldur um sinu um Bandaríkin undanfarin ár. Hann hefur í samráði við aðra embættismenn innleitt nýjar öryggisreglur í skólum sýslunnar en liður í þeim er að koma fyrir að minnsta kosti einum AR-15 rifli í hverjum skóla svo að hægt sé að grípa til vopna ef byssumaður ræðst til atlögu. Alls eru sex skólar í umdæmdi Harwood en í umfjöllun ABC fréttastofunnar kemur fram að byssurnar verði komið fyrir í læstum byssuskápum í skólunum.
Í umfjölluninni kemur fram að það hafi ekki síst verið skotárásin blóðuga í Uvalde í Texas-fylki sem hafi opnað augu skóla- og lögregluyfirvalda í Madison-sýslu að herða þyrfti á öryggisreglum. Haft er eftir Harwood að hann vilji að fulltrúar yfirvalda verði við öllu búnir ef slíkur atburður eigi sér stað í skólum Madison-sýslu. „Við viljum ekki þurfa að tapa tíma á því að hlaupa út í bíl til að ná í rifil,“ sagði Harwood. Hann sagðist ennfremur harma það að staðan væri orðin þessi en ekki væri hægt að loka augunum og halda að skotárás gæti ekki átt sér stað í sýslunni.
Ákvörðun fógetans hefur þó fallið í grýttan jarðveg meðal sumra íbúa sýslunnar sem telja að lausnin við skotárásum geti ekki verið að vopnvæða skólana.