fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fókus

Íslenska þýðingi af Drakúla reyndist ólíkt frumverkinu og mun erótískari

Fókus
Laugardaginn 6. ágúst 2022 21:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á ferðalagi um Netheima má gjarnan líta jörm (e. meme) sem vísa til íslensku þýðingarinnar á drungalegu skáldsögu Bram Stokers um vampírun-greifann Drakúla.

Jarmið virðist fyrst hafa farið á flug á síðasta ári þegar Twitter-notandinn @ihmerst tísti:

„Einhver þýddi Dracula yfir á íslensku og það tók rúmlega 100 ár áður en einhver penti á að viðkomandi hafði bara skrifað aðdáenda-útgáfu af því sem hann vildi að sagan væri.“

Íslenska þýðingin setti Drakúla-fræðasamfélagið á hliðina

Þar er vísað til aldagamallar þýðingar blaðamannsins Valdimars Ásmundssonar sem bar nafnið Makt myrkranna og birtist sem framhaldssaga í tímaritinu Fjallkonunni árið 1900 áður en hún var gefin út í formi bókar, en Stoker gaf Drakúla út árið 1897.

Drakúla-fræðimenn (já það er til) uppgötvuðu svo þýðinguna á níunda áratug síðustu aldar og urðu steinhissa að sjá að formálinn var skrifaður af sjálfum Bram Stoker. Formálinn var þýddur en fræðimennirnir lögðu ekki í restina.

Það var svo árið 2014 sem annar fræðimaður, Hans Corneel de Roos ákvað loks að þýða allan textann og uppgötvaði sér til furðu að í útgáfu Valdimars mátti finna persónur sem ekki er að finna í sjálfri sögu Stokers og þar að auki var flétta sögunnar nokkuð einfölduð og mun meira af erótík. Sumir hafa gengið svo langt að segja að þessi útgáfa sögunnar sé betri en sú sem flestir þekkja.

De Roos þótti þetta svo stórmerkilegt að hann þýddi þýðingu Valdimars og gaf út á ensku með formála sem hann ritaði sjálfur. Útgáfa de Roos kom út árið 2017 og heitir Makt myrkranna – Týnda útgáfan af Drakúla.

Í formálanum segir:

„Það var ekki fyrr en 2014 sem virti Drakúla-fræðimaðurinn Hans Corneel de Roos gerði sér grein fyrir að Ásmundsson hafði ekki bara þýtt Dracula heldur hafði í raun ritað algjörlega nýja útgáfu af sögunni með auka persónum og endurskrifaðri sögufléttu. Útkoman er styttri, beinskeyttari og erótískari og alveg jafn spennandi og frumverkið.“

De Roos taldi að jafnvel hafi Valdimar byggt á öðru handriti sem Stoker hafi ritað, ef til vill hafi Stoker viljað hafa læsilegri útgáfu af sögunni í umferð og hafi gefið út í leyni.

Sænska þýðingin uppgötvuð

Árið 2021 tók Snopes fyrir áðurnefnt tíst sem hefur farið um netið. Þar kemur fram að uppgötvun de Roos hafi valdið fjaðrafoki í samfélagi Drakúla-fræðinnar og þegar þýðing de Roos hafi komið út hafi það vakið athygli víðs vegar um heiminn.

Svo hafi nýjar vendingar átt sér stað. Árið 2017 hafi sænski rithöfundurinn Rickard Berghorn séð líkindi með íslenska textanum og sænskri þýðingu á Drakúla – Mörkrets makter.

Í kjölfarið hafi Berghorn uppgötvað að sænska útgáfan hafi komið út á undan þeirri íslensku og að þar mátti einnig finna svipuð frávik frá frumverkinu og í íslensku þýðingunni. En þýðingarnar eru þó ekki eins heldur virðist sænska útgáfan vera ögn fyllri og inniheldur senur sem hvorki er að finna í Drakúla né í Makt myrkranna.

Nú er því talið að verk Valdimars hafi í raun verið þýðing á sænska textanum.

Systurbókin Kristnihald undir jökli

En eru þó áleitnar spurningar sem eftir standa. Eins og hver skrifaði formálann sem mátti finna bæði í íslensku þýðingunni og þeirri sænsku. Þar segir að það sé Stoker sjálfur, en það er þó ósannað. Var það sænska þýðingin sem tók sér það bessaleyfi að breyta sögunni eða gæti verið að þýðingin byggi  eldri drögum frá Stoker sjálfum?

Samkvæmt Snopes eru fræðimenn enn að rannsaka og rökræða þessar spurningar, og ekki þykir enn ljóst hver uppruni þessarar útgáfu er. De Roos telur í dag líklegast að ritstjóri sænska tímaritsins sem gaf út Mörkrets makter hafi fengið handritið frá Stoker sjálfum sem hafi viljað fá að segja söguna með þessum hætti, án þess að eiga á hættu reiði frá íhaldssömum almenningi.

Ein umsögn sem birtist um Makt myrkranna í Skírni árið 1906 var þó ekki á því að um mikið bókmenntaverk væri að ræða.

„Fjallkonan flutti ýmislegt rusl og meðal annars langa sögu, Makt myrkranna. Hefði sú saga gjarnan mátt eiga sig, og get eg ekki séð, að slíkur þvættingur hafi auðgað bókmenntir vorar.“

En ekki voru allir sammála þessu. Halldór Laxness, nóbelsverðlaunahafi okkar Íslendinga, taldi Valdimar vera einn besta penna landsins og töldu margir ljóst að Kristnihald undir jökli hafi verið undir miklum áhrifum frá Makt myrkranna. Jafnvel svo að rithöfundurinn Bjarni Bjarnason kallaði þær systkinabækur í grein sem hann ritaði árið 2004.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragnhildur segir að þessi spurning valdi fólki miklum kvíða um jólin

Ragnhildur segir að þessi spurning valdi fólki miklum kvíða um jólin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Búllukóngur selur 330 milljóna króna höll á Arnarnesinu

Búllukóngur selur 330 milljóna króna höll á Arnarnesinu