Sjónvarpskonan Lóa Pind Aldísardóttir greinir frá því á Facebook-síðu sinni að henni hafi verið brugðið í dag þegar að hún kíkti inn á heimabankaappið sitt. Þá hafi blasað við henni rukkun frá félagi sem hún kannaðist ekki við að hafa átt viðskipti við. „Fer að gúgla og átta mig á að þetta er rukkun fyrir bílastæði,“ skrifar Lóa Pind. Þá hafi runnið upp fyrir henni hvernig í pottinn var búið en hún hafði kíkt á eldgosið við annan mann skömmu eftir að nýja sprungan hafði opnast.
Rukkunin, sem hljóðaði upp á 4.750 krónur, var frá Landeigandafélagi Hrauns sf. en félagið var í fréttum í síðustu eldgosahrinu vegna reksturs á bílastæðum við gosstöðvarnar. Lóa Pind er hins vegar ósátt yfir skorti á merkingum um gjaldtökuna.
„Hvergi sá ég skilti eða upplýsingar um að við yrðum rukkuð um nærri 5000 krónur fyrir að leggja bílnum á mölinni. Er ekki lágmark að fólk sé upplýst um að það sé að kaupa sér þjónustu??“ skrifar sjónvarpskonan.