Athafnakonan Drífa Björk Linnet Kristjánsdóttir, ekkja Haraldar Loga Hrafnkelssonar sem lést í hræðilegu slysi á Tenerife þann 6. febrúar, greinir frá þeim gleðitíðindum að yfirvöld á eyjunni ætli loks að afhenda fjölskyldunni lík Haraldar.
„Við erum smá að fagna. Við erum búnar að fá fréttir um það að við erum að fara að fá Halla til okkar. Ég var á fundi í morgun og aftur núna seinnipartinn með útfararþjónustu og það lítur allt út fyrir að við getum fengið Halla til okkar,“ segir Drífa Björk í færslu á Instagram-síðu sinni.
Á næstu dögum muni lík eiginmanns hennar verða brennt ytra og í framhaldinu verði líkamsleifarnar fluttar til Íslands.
„Þeir ætla sem sagt af mannúðarástæðum að afhenda hann þrátt fyrir að málinu sé ekki lokið. Þeir eru ennþá að reyna að finna upptök eldsins. Við fjölskyldan erum búin að vera nánast á tröppunum hjá lögreglunni,“ segir Drífa Björk. Að hennar sögn verði skrifað á dánarvottorðið að Haraldur Logi hafi látist af slysförum jafnvel þó að endanleg niðurstaða liggi ekki fyrir.
DV og fleiri miðlar greindu frá því í júlílok að Drífa Björk og fjölskylda hennar hefðu gengið í gegnum mikla erfiðleika í glímunni við yfirvöld ytra. Hún opnaði sig um atburðarásina þennan örlagríka dag.
„Hvaðan kom eldurinn ef Halli kveikti ekki í sjálfur, né einhver annar? Getur það verið vindill eða ofhitnaði bíllinn? Þeir eru einfaldlega ekki búnir enn að átta sig á því og því er málið enn til rannsóknar.
Búið er að rannsaka lifrina í honum til að athuga hvort honum hafi verið byrlað í drykk á einhverjum stað því þá hefði verið hægt að draga viðkomandi til saka og hægt væri að kenna viðkomandi um að Halli hafi ekki vaknað við eldinn. En það fannst ekkert í lifrinni… annað en dass af rauðvíni hjá okkar manni enda vorum við í afmæli hjá góðum vini okkar um kvöldið og ekkert óeðlilegt við það.
Öryggismyndavélar voru skoðaðar, bæði sem eru alls staðar á húsinu okkar og í götunni okkar, og þar sést mjög greinilega að Halli kom einn heim seint um nóttina, lyklalaus og vildi sennilega ekki vekja okkur og hann sest inn í bíl, ræsir vélina, kemur sér fyrir í sætinu og leggur sig.
20 mínútum síðar fer hann að húsinu til að athuga hvort einhver sé vaknaður en allir eru sofandi svo hann sest aftur inn í bílinn og sofnar. Tæplega 2 klukkustundum seinna byrjar reykur að koma frá bílnum, svo eldur og síðan sprenging og þá vöknum við öll og martröðin hefst sem við erum enn í.“