Victoria Beckham, tískudrottningin og fyrrum Kryddpía, er sögð ekki þola tengdadóttur sínam hina bandarísku Nicola Peltz sem gift er syni hennar, Brooklyn. Slúðurmiðillinn PageSix, undirvefur New York Post, heldur þessu fram og segist byggja það á traustum heimildum.
Nicola er dóttir auðkýfingsins Nelson Peltz sem er einn af 500 ríkustu Bandaríkjamönnunum. Nicola og Brooklyn kynntust fyrst á Coachella-hátíðinni árið 2017 en neistarnir fóru ekki að fljúga á milli þeirra fyrr en rúmum þremur árum síðar. Þá gengu hlutirnir líka hratt fyrir sig en Nicola og Brooklyn giftu sig í apríl á þessu ári.
„Þær þola ekki hvora aðra og talast ekki við,“ segir viðmælandi Page Six og segir að aðdragandi brúðkaupsins hafi að þeim sökum verið hræðilegur. Nicola hafi ekki viljað að Victoria hefði neitt að segja með það ferli og samskiptin hafi verið nánast engin.
Í umfjöllun miðilsins er ýjað að því að frægð Victoriu fari í taugarnar á Nicola sem hafi sjálf afrekað ýmislegt sem leikkona og fyrirsæta.
Vegna hinna meintu átaka milli Victoriu og Nicolu hafi Beckham-hjónin heyrt lítið í syni sínum síðustu mánuði. Þá hafi það farið öfugt ofan í Victoriu þegar að Brooklyn hafi birt mynd af forsíðu tímarits þar sem sjá mátti Nicolu með fyrirsögn á þá leið að hún væri hin nýja Frú Beckham.