Lárus Logi Elentínusson, 19 ára gamall, hefur glímt við þunglyndi og sjálfsvígshugsanir frá því hann var unglingur. Hann er þekktur sem Eldgosi á TikTok, og deildi því með fylgjendum sínum þar að hann hafi reynt að taka eigið líf fyrir tæpum tveimur árum. Hann er viðmælandi í nýjasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar þar sem hann lýsir barátty sinni við þunglyndi, sjálfsskaða og sjálfsvígshugsanir.
Lárus greinir frá því að hann hafi verið afar ungur þegar hann þunglyndið lagðist yfir hann.
„Ég hef verið að glíma við þunglyndi síðan í 6. bekk […] en ég fattaði það ekki fyrr en átta árum síðar eða kvöldið sem ég reyndi að fremja sjálfsvíg. Ég vissi að mér leið illa en ég hélt að öllum liði svona illa.“ segir Lárus Logi. Hann segir að hann hafi hringt í Neyðarlínuna og grátbeðið um að vera handtekinn því annars myndi hann ekki lifa af.
„Það voru tvær raddir inni í mér að öskra á hvor aðra. Ein var að fara að drepa mig og hin var skíthrædd að reyna að rökræða. Það var rifrildi í gangi í hausnum. Góða röddin nær að taka yfir og ég hringi í 112 á sjálfan mig, bið þau um að handtaka mig. Löggan kom innan tveggja mínútna sem ég er svo þakklátur fyrir.“
Lögreglan fylgdi honum svo upp á sjúkrahús þar sem læknir greindi hann með þunglyndi og skrifaði upp á þunglyndislyf sem hann byrjaði á strax degi síðar.
Lárus greinir frá því hvernig í marga mánuði hafi viðbrögð fólks á TikTok, athugasemdir og „likes“ bókstaflega haldið í honum lífinu.
„Ég fer að pósta tvisvar til þrisvar á dag [á TikTok] […] og þetta var í rauninni það eina sem hélt mér á lífi“ sagði Lárus Logi en hann segist svo hafa áttað sig á að hann væri ekki að sinna sjálfum sér nægilega vel heldur lifði eingöngu fyrir likes og comment. Hann hafi þurft að taka sér hlé í tvo mánuði til að ná aftur áttum.
Lárus segir eitt það mikilvægasta sem hann hafi lært í þessari baráttu sé mikilvægi þess að ræða líðan sína opinskátt og vera tilbúinn til að leyfa öðrum að hjálpa sér.
„Það er enginn að fara að hugsa, oh Lárus er þunglyndur, leyfum honum bara að líða illa ég nenni ekki að díla við það. Það vilja allir hjálpa, það er alltaf einhver tilbúinn til þess.“
Lárus viðurkenni að enn komi oft erfiðir dagar inn á milli, en hann sé búinn að læra að erfiðu tímabilunum lýkur alltaf.
„Ég hef fengið að upplifa hamingju inn á milli leiðinlegu tímabilanna og það sem lætur mér líða vel er að ég er búinn að fara í gegnum nokkur leiðinleg tímabil og þau enda alltaf. Maður sér það kannski ekki í miðju tímabili en þau enda og ég veit það bara.“
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan.
Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið, númerið er ókeypis og opið allan sólarhringinn.
Nánari upplýsingar má finna hér
Píeta samtökin bjóða einnig upp á þjónustu í síma 552-2218 fyrir fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaðahegðun.