Um helgina var spilaður Þjóðhátíðarleikurinn svokallaði. Árlega á ÍBV heimaleik um Verslunarmannahelgina, á meðan Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fer fram. Myndast gjarnan mikil stemning þar.
ÍBV mætti Keflavík á laugardag og lauk leiknum með 2-2 jafntefli.
Atli Viðar Björnsson var sérfræðingur í Stúkunni á Stöð 2 Sport í gær. Þar var Þjóðhátíðarleikurinn til umræðu.
„Ég hef spilað þennan Þjóðhátíðarleik. Hann er stórskemmtilegur, en það reyndist mörgum erfitt að fara í rútuna eftir leik og svo heim aftur, geta ekki verið eftir og tekið helgina,“ sagði Atli, en hann lék lengst af með FH á leikmannaferli sínum.
Guðmundur Benediktsson spurði hann hvort hann hafi fengið að vera eftir á eyjunni. „Ég fékk ekki leyfi, það var auðveldara fyrir mig en marga aðra að fara heim,“ svaraði Atli.
Baldur Sigurðsson var einnig í þættinum og sló á létta strengi. „Fáum réttu útgáfuna eftir þátt,“ sagði hann.