Mesut Özil verður ekki klár fyrir leiki Istanbul Basaksehir gegn Breiðabliki í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildari UEFA.
Fyrri leikur liðanna fer fram á Kópavogsvelli á fimmtudag og sá síðari í Tyrklandi viku síðar.
Özil er kominn stutt á veg í undirbúningi sínum fyrir komandi leiktíð, auk þess að vera að glíma við smávægileg meiðsli. Hann er því ekki í hópi Basaksehir sem kemur til Íslands.
Það eru nokkrir aðrir þekktir leikmenn í hópi Basaksehir. Þar má nefna Nacer Chadli, fyrrum leikmann Tottenham og Lucas Biglia, fyrrum leikmann AC Milan og Lazio.
Özil gerði garðinn frægan með Arsenal og Real Madrid á árum áður. Þá varð hann heimsmeistari með Þýskalandi árið 2014.