fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Stjórnviska öldungsins

Eyjan
Mánudaginn 1. ágúst 2022 16:30

Henry Kissinger

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Liðin eru rétt tæp 49 ár frá því að Henry Kissinger tók við embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Richards Nixons. Nálega allir stjórnmálamenn sem voru áberandi á þeim árum eru horfnir af sjónarsviðinu og þeir sem lifa (í hárri elli) fyrir löngu sestir í helgan stein. Öðru máli gegnir um Kissinger sem er enn að, 99 ára að aldri. Fyrr í sumar kom út bók hans Leadership sem fjallar um sex þjóðarleiðtoga sem hann kynntist og áttu það sammerkt hafa tekið við erfiðu búi en orðið verulega ágengt í sínum störfum, svo mjög að varanleg áhrif hafði langt út fyrir heimaríki þeirra og jafnvel þannig að heimsmálin urðu ekki söm. Þeir forystumenn sem hann tekur til umfjöllunar í bókinni eru Konrad Adenauer, kanslari Vestur-Þýskalands 1949–1963, Charles de Gaulle, Frakklandsforseti 1959–1969, Richard Nixon, Bandaríkjaforseti 1969–1974, Anwar Sadat, forseti Egyptalands 1970–1981, Lee Kuan Yew, forsætisráðherra Singapúr 1959–1990, og Margaret Thatcher, forsætisráðherra Bretlands 1979–1990.

Landsfeður

Kissinger skiptir forystumönnum ríkja í tvo flokka, annars vegar séu þeir statesman og hins vegar prophet. Í ensk-íslenskri orðabók Sigurðar Arnar Bogasonar er statesman þýtt sem stjórnvitringur, orð sem okkur er kannski ekki alveg tamt en samkvæmt enskri skilgreiningu er statesman „political leader of distinguised ability“. Þýskumælandi menn hafa samsvarandi orð og tala stundum um að einhver sé „ein großer Staatsmann“ og Staatskunst heitir bókin í þýskri útgáfu. Kannski orðið landsfaðir nái merkingunni nokkurn veginn. Prophet eða spámaður er aftur á móti í skilningi Kissingers forystumaður sem er búinn undir að ryðja nýja braut og segja skilið við fortíðina, burt séð frá áhættunni sem það hefur í för með sér.

Kissinger flokkar Adenauer, Nixon og Thatcher sem nánast fullkomna stjórnvitringa. Undir forystu Adenauers hefðu Þjóðverjar á ný orðið þjóð meðal þjóða. Markmið Nixons hefði verið að nýta efnahagslegan og hernaðarlegan styrk Bandaríkjamanna til að koma á jafnvægi til langs tíma í alþjóðakerfinu sem draga myndi úr hættu á að stríðsátök brytust út milli stórveldanna. Og Thatcher hefði haft óbilandi trú á gildi þess að leysa úr læðingi sköpunarkraft einstaklinganna með því að létta höftum af fólki og fyrirtækjum.
Á hinn bóginn hefðu de Gaulle og Sadat haft spámannlegar hugmyndir um getu eigin þjóða og samhliða sett fram afar háleit markmið. Í útlegð í Lundúnum á árum síðari heimsstyrjaldar hefði de Gaulle í ræðu og riti sýnt óbifandi staðfestu í baráttunni fyrir frjálsu Frakklandi þegar öll sund virtust lokuð. Og Sadat gerði sér einlæglega grein fyrir því að frelsi og fullveldi egypsku þjóðarinnar væri háð því að friður næðist við Ísraelsmenn og galt fyrir þá hugsjón með lífi sínu.

Að mati Kissingers tekst hinum fullkomna forystumanni að sameina þá höfuðdrætti sem einkenna hvorn um sig, stjórnvitringinn og spámanninn (eða kannski færi betur á að tala um brautryðjandann). Kissinger telur þann sem kemst næst því af forystumönnunum sex vera Lee Kuan Yew, forsætisráðherra Singapúr. Hann hefði hvort tveggja í senn haft til að bera raunsæi í miklum mæli og háleitar hugsjónir um hverju fjölþjóðlegt samfélag þessa borgríkis gæti áorkað. En Singapúr er ekki frjálslynt lýðræðisríki — þvert á móti — og á stöku stað skautar Kissinger full léttilega framhjá alvarlegum brestum í stjórnarháttum sexmenninganna.

Skýr siðferðisafstaða er nauðsynleg

Kissinger veltir því upp undir lok bókarinnar hvort um þessar mundir séu að koma fram forystumenn hafi til að bera þá eðlisávísun, greind og djörfung sem þurfi til að takast á við þau stórkostlegu verkefni sem við blasa í heimsmálunum. Hann er því miður ekki ýkja bjartsýnn hvað þetta varðar. Hann bendir til að mynda á hnignun almennrar menntunar og tilkomu tækni sem hafi orðið þess valdandi að borgararnir einangrist hver frá öðrum.

Kissinger lýsir aukinheldur áhyggjum af hnignun siðferðilegra gilda og þá hafi trúin misst gildi sitt en jafnan hafi sterk siðferðileg og trúarlega afstaða legið til grundvallar lífsafstöðu mikilla forystumanna. Þetta eigi líka við um hans gamla húsbónda, Nixon, sem hafi verið undir miklum áhrifum af trúarkenningum kvekara í uppvexti sínum.

Kissinger áréttar að trú á framtíðina sé ómissandi eiginleiki farsæls forystumanns — trúin á eitthvert æðra mark. Hinum fremstu þjóðfélögum heims muni fara hnignandi ef borgararnir missa trú á þjóðfélaginu ellegar þeir taki til við að draga kerfisbundið í efa sjálfsmynd samfélagsins.

Þörfnumst mikilhæfra forystumanna

Hugurinn leitar eðlilega hingað heim. Í Vestra árið 1901 ritaði Hannes Hafstein:

„Ekkert land þarf þess fremur við en Ísland að fá öfluga og framtakssama forustu innlends stjórnarvalds, þetta vanrækta land, sem sveltur með krásardiskinn í kjöltunni, þar sem ríkar og öflugar auðlindir eru ónotaðar eða ekki hálfnotaðar, aðalatvinnuvegirnir glíma hver við annan, afurðir landsins verða ekki arðbærar fyrir peningaleysi, verksmiðjuleysi og fólksfæð, og fólkinu fjölgar ekki.“

Einmitt svona tala afburðarforystumenn — menn sem greina vandann með meitluðu orðfæri og hafa samhliða fullkomna sýn á takmarkið. Við vitum líka hvers konar umbreyting varð í íslensku þjóðlífi á þeim árum sem í hönd fóru. Og nefna mætti nokkur dæmi um stjórnmálaforingja íslenska sem öðluðust sess sem landsfeður, menn eins og Hannes Hafstein. Í bók sinni leiðir Kissinger lesandanum fyrir sjónir ótvírætt gildi mikilhæfra forystumanna en áhyggjur hans af samtímanum eru í meira lagi áleitnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?