Roy Keane, goðsögn Manhcester United, hefur hrósað kaupum grannana í Manchester City á norska landsliðsmanninum Erling Haaland.
Haaland er genginn í raðir Man City frá Dortmund og spilaði í gær sinn fyrsta keppnisleik fyrir félagið í 3-1 tapi gegn Liverpool.
Haaland náði sér í raun ekki á strik í þessum leik og klikkaði á dauðafæri í uppbótartíma til að laga stöðuna í 3-2.
Keane er þó handviss um að Englandsmeistararnir hafi gert góð kaup og er mjög spenntur fyrir því að sjá leikmanninn í vetur.
,,Þetta er frábær, frábær leikmaður á góðum aldri, 22. Hann hefur ekki náð sínu besta enn sem komið er og er að vinna með frábæru liði og frábærum stjóra. Hann er með allt sem þarf til að ná árangri og það er ekki hægt að ímynda sé að hann skori minna en 20 mörk,“ sagði Keane.
,,Ef hann heldur sér heilum þá er hann með rétta viðhorfið, þvílík kaup. Þetta er spennandi leikmaður og ég er mjög spenntur fyrir því að sjá hann næstu vikurnar.“