Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá því að hún hafi þurft að hafa afskipti af mjög reiðum manni sem lét ófriðlega á bílaleigu Brimborgar á Akureyri. „Lögreglumenn náðu að leysa málið á staðnum en það tók drykklanga stund og þurfti að taka manninn tökum og færa hann út úr húsnæði Brimborgar. Maðurinn var afar reiður en lögreglumönnum tókst að róa hann og leysa málið á fagmannlegan hátt án eftirmála,“ segir í tilkynningunni.
Lögreglan fyrir norðan er með aukinn viðbúnað í umferðareftirliti yfir verslunarmannahelgina en hefur þegar þurft að aðstoða sjúkralið vegna sjúkraflutninga eftir umferðaróhöpp. Þess má geta að umferðareftirlit er meðal annars framkvæmt úr þyrlu.