Í gærkvöld var lögreglu tilkynnt um yfirstandandi innbrot í íbúðarhús í Mosfellsbæ. Húseigendur voru staddir erlendis en sáu innbrotsþjófinn í gegnum öryggismyndavél heimilisins. Lögregla kom á vettvang og kom þá í ljós að öryggismyndavél hafði dottið af og var enginn inni í húsinu.
Frá þessu greinir í dagbók lögreglu. Þar segir að mikið hafi verið um ölvun og óspektir á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og nótt og gistu sjö fangageymslu.
Tilkynnt var um slagsmál á skemmtistað í Breiðholti. Höfðu 6-7 verið að slást en þegar lögregla kom á vettvang var allt orðið rólegt.
Kona ein lét öllum illum látum í miðborginni. Hafði hún skvett öli yfir dyraverði skemmtistaðar en er lögregla ræddi við hana missti hún stjórn á skapi sínuog reyndi ítrekað að sparka í og bíta lögreglumenn. Var konan vistuð í fangageymslu.