Cristiano Ronaldo er ekki í hópnum hjá Manchester United sem mætir Atletico Madrid í æfingaleik í Osló á morgun
Framtíð Ronaldo er í óvissu. Portúgalinn hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Hann vill komast frá Manchester United, ári eftir að hann gekk til liðs við félagið. Liðið olli vonbrigðum á síðustu leiktíð og hafnaði í sjötta sæti. Man Utd spilar því ekki í Meistaradeildinni á komandi leiktíð.
Ronaldo hefur verið orðaður við fjölda félaga í sumar. Það er þó eins og ekkert þeirra sé til í að taka sénsinn á því að fá hann.
Leikur Atletico og Man Utd fer fram á Ulleval-leikvanginum á morgun og hefst klukkan 11:45 að íslenskum tíma.