Breiðablik mætir Istanbul Basaksehir í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildar UEFA.
Fyrri leikur liðanna fer fram á Kópavogsvelli á fimmtudaginn næstkomandi og sá síðari í Tyrklandi viku síðar.
Með Istanbul Basaksehir leika nokkrir þekktir leikmenn. Sá frægasti er án efa Mesut Özil, sem gerði garðinn frægan með Arsenal og Real Madrid á árum áður.
Hann er þó ekki eini heimsfrægi leikmaðurinn. Menn á borð við Lucas Biglia, fyrrum leikmann AC Milan og Nacer Chadli, sem var hjá Tottenham, eru einnig á mála hjá Basaksehir.
Víkingur leikur einnig í þriðju umferð undankeppninnar. Liðið mætir Lech Poznan frá Póllandi. Fyrri leikurinn fer fram í Víkinni á fimmtudag og sá síðari í Póllandi viku síðar.